19.10.2007 | 23:11
Háttvirtir Alþingismenn
Hér er póstur sem ég sendi rétt í þessu til allra alþingismanna og tveggja fjölmiðla.
Mig langar að vekja athygli þingheims á því ófremdarástandi sem er í veitingu atvinnuleyfa vegna starfsfólks með sérkunnáttu eða reynslu sem ekki er fáanleg hér eða á EU svæðinu.
Til að gera langa sögu stutta þá sótti undirritaður um atvinnuleyfi fyrir sérhæfðan starfsmann þann 18 apríl 2006 lagði undirritaður inn umsóknina og önnur umbeðin fylgiskjöl til Útlendingarstofnunar, eftir á hafa árangurslaust leitað hérlendis og auglýst á EU svæðinu.
Eftir enn meiri gagna og vottorðaöflun að beiðni Útlendingastofu var umsókninni hafnað þann 9.ágúst 2006. Undirritaður kærði höfnun atvinnuleyfisins til Félagsmálaráðuneytisins þann 1. september 2006. Lögmaður minn sendi félagsmálaráðuneytinu andsvar við neikvæðri umsögn sem barst ekki fyrr en 10 apríl 2007 þrátt fyrir margar ítrekanir. í umsögninni er mér meðal annars bent á að fara með Íslending til Thailands og kenna honum það sem til þarf, sú ummæli dæma sig sjálf.
Ekkert hafði gert í úrskurði kærunnar fyrr en undirritaður lagði fram kvörtun til Umboðsmann Alþingis í lok september 2007. Þann 10 október fékk lögmaður minn bréf þar sem óskað er eftir gögnum þar sem sýnir að undirritaður hefur svarað þeim atvinnuumsóknum sem vinnumálastofnun sendi, það var gert.
Húsið sem er sérbyggt og innréttað undir heilsulindina stóð fullbúið en autt í rúmlega ár þar sem hvorki fannst starfsmaður með kunnáttu né atvinnuleyfi fyrir kunnáttu mann og er það með öllu óásættanlegt svo ekki sé minnst á þann kostnað við að geta ekki hafið rekstur í fullbúnu fyrirtæki.
Það vildi svo vel til um miðjan síðasta mánuð að maður hafði samband við undirritaðan og tjáði honum að hann hefði séð umfjöllun í dagblaði um að undirritaður væri að leita að kunnáttumanneskju Hann hafði kvænst konu fyrr á þessu ári sem bjó yfir hluta af þeirri kunnáttu sem undirritaður hefur verið að leita að þannig að nú hefur verið hægt að hefja rekstur í heilsulindinni en með skertri þjónustu. Það er augljóslega óásættanlegt að þurfa að eiga það á hættu þurfa hætta blómlegum rekstri í marga mánuði eða ár, ef starfsmaður forfallast eða vil skipta um starfsvettvang, því ekki er hægt að fá atvinnuleyfi með eðlilegum hætti fyrir kunnáttumanneskju utan EU þó að ekki fyndist manneskja hérlendis eða á EU svæðinu.
Ég hef reynt að bjóða því fólki, sem hefur með höndum ákvarðanatöku um veitingu umrætts atvinnuleyfis, að skoða heilsulindina svo þau geta séð með eigin augum og frá fyrstu hendi að þörfin fyrir fagmanneskju er mikil. Undirritaður vil hér með bjóða yður að skoða aðstöðuna og fara í jurtagufubað og sjópott ef áhugi er fyrir hendi svo þér getið kynnst umræddu máli betur og undirritaður megi eygja þá von í framtíðinni að þurfa ekki að upplifa aftur það ábyrgða og sinnuleysi sem einkennt hefur umrætt mál.
Hér að neðan er ferlið rakið ítarlega ásamt andsvari við umsögn vinnumálastofnunar.
Undirritaður gerir sér grein fyrir að það eru ekki allir sem sjá sér fært að lesa allt neðangreint, og það sjá allir að engin á að þurfa að fara í gegn um neðangreint ferli.
Virðingarfyllst
Bogi Jónson
í byrjun árs 2005 fékk ég loks heimild, eftir nokkra ára baráttu, til þess að byggja taílenskt baðhús (SPA) á Hliði Álftarnesi ( sjá nánar www.1960.is ). Hugmyndin kom þannig til að ég hafði kynnst taílensku spa menningunni og
langaði að brydda upp á þeirri nýjung (nýsköpun) hérlendis. Ég lærði sjálfur taílenska nuddið árið 1998 í Taílandi en skortir alla reynslu og þar sem mágkona mín hefur starfað við taílenskt nudd og spa meðferðir í mörg ár þá hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að fá hana hingað til lands til þess að starfa við baðhúsið. Þannig væri hægt að byrja frá fyrsta degi með starfsmann sem býr yfir bestu fáanlegu kunnáttu og reynslu í faginu. Það tíðkaðist ekki í Taílandi á árum áður að fólk færi í sérstakan skóla til þess að læra nudd heldur var það kennt mann fram að manni og þeir hæfustu fengu starf við nuddið. Fyrir nokkrum árum fór Wat Po klaustrið í Taílandi, sem hefur haldið utan um þann merkilega þjóðararf sem taílenska nuddið er, að bjóða upp á námskeið í nuddinu og skjal því til staðfestingar ef viðkomandi hefur öðlast þá kunnáttu og færni sem nauðsynleg er til að stunda nuddið. Við drifum mágkonuna á námskeiðin svo hún hefði eitthvað í höndunum (handa okkur skírteinaglöðu Vesturlandabúum) um að hún kunni skil á taílenska nuddinu. Einnig fór hún í klaustur og gerðist munkur í nokkra mánuði þess til að slípa andlegu hliðina.
En svo kom stóra babbið, sem reynir með óbilandi þvermóðsku, að sökkva bátnum
Í byrjun apríl 2006 þegar sá fyrir enda á byggingu og innréttingu spa hússins,
fór ég niður í Útlendingastofnun til þess að afla mér upplýsinga um hvaða gögn ég þyrfti að skila inn með umsókninni um atvinnu- og dvalarleyfi fyrir manneskju frá Taílandi.
Þar fékk ég í hendur stór og mikil umsóknareyðublöð vegna atvinnuleyfis og dvalarleyfis ásamt ráðningarsamningi og sex blaðsíðna doðranti um skyldur atvinnurekanda og upplýsingar um þau önnur plögg sem þyrftu að vera með. Ég fyllti umsóknirnar og ráðningarsamninginn samviskusamlega út í tvíriti þar sem spurt var sömu spurninganna aftur og aftur. Því næst var farið með samninginn í verkalýðsfélagið þar sem þeir fóru yfir hann og kvittuðu uppá ef hann var í lagi sem hann og var.
Mágkonan sendi okkur vegabréfið sitt, læknisvottorð, skírteinin sem staðfestu
kunnáttu hennar um taílenska nuddið og mynd. Þá var ég búin að safna þeim gögnum sem ég var beðin um ásamt húsnæðisvottorði og sérstakri greinargerð þar sem ég útskýrði hvað ég væri að gera og hvers vegna ég
yrði að fá manneskju með þessa kunnáttu og reynslu í starfið og að ég yrði að vita hvaða mann starfsmaður minn hafi að geyma.
Þann 18. apríl 2006 fór ég niður í Útlendingastofnun og skilaði inn gögnunum. Til öryggis lét ég afgreiðslumanninn yfirfara þau og athuga hvort allt væri ekki örugglega komið því til stóð að opna baðhúsið í byrjum júní og ég vildi vera viss um að það yrðu ekki tafir vegna einhverra gagna sem vantaði.
Það var liðið fram í júní og ekkert atvinnuleyfi komið enn þrátt fyrir að ég
hafi haft samband nokkrum sinnum niður í Útlendingastofnum. Svörin voru á þá leið að málið væri í vinnslu.
Þann 3. júní bankaði upp hjá mér maður úr næsta sveitarfélagi og spurði mig hvort þetta ábyrgðabréf sem hann hefði í höndum tilheyrði mér ekki. Því hafi verið stungið inn um lúguna hjá honum án þess að neinn kvittaði upp á það. Jú, þar var komin endursend umsóknin og ósk um frekari gögn sem skuli skila inn ekki seinna en 23. júní. Nú vantaði sjúkratryggingu frá tryggingafélagi með starfsleyfi hérlendis að lámarki 2.000.000 sem þarf að vera undirrituð af mákonunni í Taílandi. Dvalarleyfisumsóknina þarf hún einnig að undirrita ásamt ráðningarsamningnum og umboði sem leyfir mér að sjá um hennar umsóknarmál hérlendis. Svo þarf hún að skila sakavottorði. Við sendum umsóknirnar og vegabréfið út í snarhasti svo hún gæti sótt um sakavottorð og kvittað upp á pappírana
Það er seinagangur í fleiri kerfum en hér því mágkonan þarf að bíða í tíu daga
eftir að hún leggur inn umsókn um sakavottorð þar til hún fær það.
Mér tókst að fá í hendur alla umbeðna pappíra að undanskyldu sakavottorðinu og lagði það inn til Útlendingastofnunar þann 22. júní ásamt bréfi þar sem ég fer fram á frest í nokkra daga til að skila sakavottorði sem ég fékk. Sakavottorðinu var síðan skilað inn nokkrum dögum seinna.
Nú líður og bíður og ekki fást aðrar fréttir af umsókninni en þær að málið sé í
vinnslu fyrr en þann 9. ágúst þegar Vinnumálastofnun hafnar atvinnuleyfinu á þeim forsendum að ríkisborgarar EES njóti forgangs á atvinnumarkaði hér.
Það skal tekið fram að þann 1. maí 2006 var opnað fyrir frjálst flæði starfsfólks
frá EES ríkjum og jafnframt verulega heft og jafn vel alveg lokað fyrir önnur
lönd. Því hafði ég auglýst eftir manneskju sem kynni taílenskt nudd og
skil á taílenskum spa meðferðum á vef Vinnumálastofnunar bæði hérlendis og
á EES svæðinu frá því í mars til þess að uppfylla þessi forgangsskilyrði, en eins og ég vissi og hafði kannað árum áður hafði enginn umsækjenda þá kunnáttu sem ég óskaði eftir. Ég fékk fjöldann allan af umsóknum frá Vinnumálastofnum þar sem flestir umsækjendur voru frá fyrrum austantjaldslöndum og bakrunnur þeirra allt frá því að vinna í vöruhúsum en vera til í að læra nudd upp í hefðbundna slökunarnuddara, en engin kunni skil á taílenska nuddinu, hvað þá taílensku spa meðferðunum.
Mér var bent á þann möguleika að kæra afgreiðslu umsóknarinnar til
félagsmálaráðuneytisins og hafði ég fjögurra vikna frest til þess.
Nú var baðhúsið tilbúið með sloppum ,handklæðum og öllu sem við á að vera nema hæfum starfsmanni.
Það er skelfilegt að horfa upp á nýtt glæsilegt atvinnutæki sem byggt er á
nýsköpun standa autt og ónotað og þá tugi miljóna sem lagðar hafa verið í að
útbúa það sem glæsilegast. Og ekki minnka ónotin við að vita að hér heima bíða menn óþreyjufullir eftir að fá að nota þjónustuna á meðan mágkona mín bíður hinum megin á hnettinum ekki síður óþreyjufull eftir að koma til starfa hér.
Stíflan er einungis vegna skilningsgetuleysis nokkurra kontórista sem virðist ómögulegt að skynja tilveruna öðruvísi en í nöfnum og númerum á blöðum.
Ég hafði samband við lögfræðing Alþjóðahúss og fékk aðstoð hans við að skrifa kærubréfið með mér þar sem meðal annars var aftur farið ítarlega í að útskýra hvers vegna mér er nauðsyn á að fá þennan starfskraft til vinnu og heilsíðu blaðagrein látin fylgja með til frekari útskýringa um hversu einstaka aðstöðu ég er búin að byggja upp í kring um taílenska nuddið.
Kæran var lögð inn til félagsmálaráðuneytisins þann 1. september 2006. Stuttu seinna fékk ég sent ljósrit af bréfi sem félagsmálaráðuneytið sendi
Vinnumálastofnun þann 6. september þar sem kemur fram að ég hafi kært ákvörðun Vinnumálastofnunar og óskað er eftir umsögn Vinnumálastofnunar um erindið. Þar var það tekið fram að umsögnin skuli berast til ráðuneytisins fyrir þann 20.september næstkomandi.
Í byrjun október hafði ég samband við félagsmálaráðuneytið og spurði um stöðu kærunnar en ekkert svar hafði borist frá Vinnumálastofnum og var mér sagt að þangað yrði sent ítrekunarbréf. Stuttu seinna fékk ég ljósrit af ítrekunarbréfinu sem sent var Vinnumálastofnun.
Í nóvember sendi ég forstjóra Vinnumálastofnunar tölvupóst í tvígang sem
ekki var svarað frekar en skilaboðum um að hafa samband sem ég bað
afgreiðslumann Vinnumálastofnunar að koma til forstjóra eftir árangurslausa
heimsókn þangað.
Í byrjun desember fékk ég enn og aftur ljósrit af bréfi sem félagsmálaráðuneytið sendi Vinnumálastofnun þar sem enn og aftur er ítrekað
beðið um áðurnefnda umsögn og lögð áhersla á að Vinnumálastofnum beri skyldu til að veita umbeðna umsókn svo ráðuneytið geti afgreitt kæruna.
Í áframhaldi af því sendi ég félagsmálaráðherra tölvupóst þar sem ég útskýrði mál mín og bað um aðstoð hans til að fá svar frá Vinnumálastofnun. Einnig bauð ég ráðherra í hádegismat svo hann gæti séð með eigin augum um hvað málið snýst.
Þeim pósti var ekki svarað fyrr en 10. janúar eftir að ég sendi ítrekunarpóst
þar sem ég benti ráðherra á frábæra aðgerð í póstforritum sem er hnappur
merktur reply á ensku en það er nóg að smella á hann og þá er hægt að svara viðkomandi fljótt og örugglega. Ráðherra sagðist ætla að kynna sér málið.
Nú tók að líða á 2007 og ekki heyrðist hóst né stuna hvorki frá Vinnumálastofnum né ráðuneytinu. Þann 1. febrúar sendi ég ráðherra tölvupóst þar sem ég lýsi verulegum óróa mínum af gangi mála og að þurfa að horfa upp á fullbúið spa húsið sem stendur ónotað og rykfellur.
Þeim pósti var ekki svarað.
Eftir að hafa ítrekað enn og aftur við bæði forstjóra Vinnumálastofnunar og
ráðherra fékk ég eina ferðina enn ljósrit af bréfi frá félagsmálaráðuneytinu
þar sem enn og aftur er ítrekuð beiðnin um umsögn og tekið fram að ef umsögnin berist ekki fyrir 30 mars þurfi Vinnumálastofnun að upplýsa ráðherra um ástæðu þess.
Loks komst hreyfing á málið og þann 20. mars hafði forstjóri Vinnumálastofnunar samband við mig og vildi fá nánari upplýsingar um það nám sem mágkona mín hefur í taílensku nuddi. Ég sendi forstjóra tölvupóst þar sem útskýrð er enn og aftur sú sérstaða sem taílenskt nudd hefur og sú aðstaða sem ég hef sérstaklega byggt í kringum það. Einnig er útskýrð sú hefð að nuddið sé kennt mann fram að manni og í ofanálagi sendi ég honum vefslóðina að taílenska nuddskólanum Wat Po þaðan sem mágkonan hefur skírteini til staðfestingar um sína kunnáttu
Jæja, nú sá fyrir endann á þessari þrautargöngu og húsið búið að standa klárt í marga mánuði,
Þann 10. apríl fékk ég póst frá Vinnumálastofnun þar sem málinu var synjað og ástæðan, fæ ég ekki betur séð, er sú að sambærilegu máli hafi áður verið synjað og það kallast ekki góð stjórnsýsla að éta eitthvað ofan í sig. Það er nokkuð ljóst að vægi þess að bakka ekki er þeim mikilvægari en en að láta skynsemina og raunverulega þörf ráða.
Það er hreint með ólíkindum ábyrgðar- og áhugaleysi starfsmanna okkar í þeirri stofnun sem hefur það vald með höndum að ákveða hverjir fá að vinna hjá okkur. Þeir halda atvinnustarfsemi í gíslingu í marga mánuði, senda atvinnurekendur út og suður að útvega fleiri gögn og vottorð og halda úti tryggingu fyrir þann starfsmann sem aldrei stóð til að veita atvinnuleyfi. Skelfilegust er þó sú fyrirlitning sem okkur er sýnd með því að svara ekki fyrirspurnum þrátt fyrir margar ítrekanir.
Það var sérstaklega nöturlegt að fá þessi skilaboð á sama tíma og sá flokkur
sem hefur forráð bæði í félagsmálaráðuneytinu og Vinnumálastofnun sendir frá sér eftirfarandi: "Árangur áfram ekkert stopp. Með áframhaldandi uppbyggingu öflugs atvinnulífs og kröftugri nýsköpun er unnt að standa undir enn frekari eflingu velferðakerfisins og þeirri samhjálp sem menn vilja geta boðið fólki um land allt."
Ég er ekki tilbúinn í að henda frá mér atvinnutæki sem byggt er á nýsköpun og breyta taílenska spa húsinu mínu í enn eina venjulega nuddstofu.
Það hefur lítið breyst í því viðmóti sem ég hef fengið síðustu tvo áratugi hjá þeim stofnunum sem fara með umsýslu atvinnu- og dvalarleyfa þótt nöfnum þeirra hafi verið breitt til þess að virðast mýkri útávið. Árið 1988 áður en við hjónin giftum okkur hugðist ég bjóða kærustunni hingað til lands svo hún gæti kynnst landi og þjóð. Þá var ég tekin á eintal niður í útlendingaeftirliti og mér sagt að ef ég lofaði því að verða ekki ástfanginn af henni þá skyldu þeir veita henni leyfi til að þess að koma hingað í tvo mánuði. Ég gat lofað því með hreinni samvisku að verða ekki ástfanginn af henni því ég gat ekki orðið ástfangnari af henni en ég var nú þegar.
Sú fyrirlitning og vantraust sem ég hef rekist á og reynt að leiða hjá mér undanfarin ár hefur oftar en ekki vakið upp þá tilfinningu hjá mér að auðveldara væri að vera giftur hundi. Þá væri a.m.k einfaldara að rækta sambandið við ættingjana eða fá þá til að aðstoða sig. Þeir þyrftu einungis að vera vissan tíma í einangrunarstöð og yrðu síðan teknir í sátt.
Ég lifi enn í þeirri von að einn góðan veðurdag vakni ég upp laus við þá lýjandi tilfinningu í brjósti að ég, fjölskylda mín og aðrir erlendir gestir sem búa í þessu landi, hvort sem þeir hafi íslenskan ríkisborgararétt eður ei, séu ekki aðeins óvelkomin sníkjudýr. Þetta hef ég á tilfinningunni þó svo að ég viti að við Íslendingar eigum þeim að þakka þá hagsæld sem við búum við í dag. Innviðir þjóðfélagsins myndu hrynja ef þeir hyrfu einn daginn þar sem stæðsti hluti okkar innfæddra Íslendinga finnst við yfir það hafin að vinna við ræstingar, hjúkra sjúkum eða okkar öldruðu móður og föður.
Nokkrar staðreyndir:
1. Þegar ákvörðun um byggingu spa hússins var tekin og byggingarleyfi afgreitt þá var litlum vandræðum bundið að fá sérfræðing utan EES hingað til starfa.
2. Umsókn um atvinnuleyfi var lögð inn fyrir þann 1. maí þegar landamærunum var lokað fyrir starfsfólk frá Asíu
3. Atvinnuleyfi var hafnað í fyrstu vegna þess að ekki var reynt að fá
starfsmann frá EES ríki. Það er rangt. Sjá auglýsingu á vef
Vinnumálastofnunar sem sett var inn töluvert áður en sótt var um atvinnuleyfi.
4. Kæru vegna atvinnuleyfis var hafnað vegna þess að áður hafi sambærilegri kæru verið hafnað á þeim forsendum að Wat po nuddskólinn sé skilgreindur sem stutt námskeið. Nuddskóli Íslands er væntanlega notaður sem viðmið en hann kennir ekki taílenskt nudd og taílenskar spa meðferðir heldur hefðbundið slökunar og sjúkranudd sem mágkona mín kemur ekki til með að starfa við.
5. Það er einkennilegt að ekki er tekið tillit til þess að vandað sé til vals
á starfsfólki í svona persónulegu starfi. Að það sé óviðunandi að vilja heldur
ráða mágkonu sína sem við vitum öll deili á en að velja einhverja af þeim átján umsóknum sem vinnumálastofnun sendi okkur frá erlendu ókunnugu fólki með reynslu og kunnáttu allt frá því að vinna í vöruhúsi en vera til í að læra nudd.
21/ apríl 2007
Bogi Jónsson
Hliði Álftanesi
__________________________________________________________________________________
Áframhald tekið saman 20 sept 2007
Seinnipart apríl fékk ég umsögnina dagsetta 18 apríl þar sem ítrekað er á að ekki er þörf fyrir umræddan starfsmann, ég gæti til að mynda farið með Íslending til Thailands og kennt honum (Thai nudd, reynslu og menningu)
Ég fékk mér lögfræðing til að hjálpa mér að setja niður andsvar við umsögninni sem síðan var sent félagsmálaráðuneytinu um mánaðarmótin apríl maí. Hér er bréfið að neðan:
Félagsmálaráðuneytið
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
150 Reykjavík
Reykjavík, 30. apríl 2007.
Tilv. yðar: FEL06090007/2601-1
Efni: Andsvör við umsögn Vinnumálastofnunar um stjórnsýslukæru Boga Jónssonar f.h. Alheims ehf.
Til mín hefur leitað Bogi Jónsson, kt. 250560-4439, Hliði, Álftanesi. vegna fyrirtækis síns Alheims ehf., og falið mér að svara bréfi ráðuneytisins dags. 18. apríl sl.
Í bréfinu er umbj. mínum gefinn kostur á að láta í ljósi afstöðu sína til umsagnar Vinnumálastofnunar um kæru umbj. míns til ráðuneytisins, dags. 1. september 2006, á þeirri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 9. ágúst 2006, að synja um veitingu atvinnuleyfis til handa Alheimi ehf. fyrir Anusorn Sawangchaitham, taílenskan ríkisborgara og mágkonu umbj. míns.
Málsatvik og helstu röksemdir umbj. míns koma fram í gögnum málsins og kæru umbj. míns. Þessi gögn munu vera í höndum ráðuneytisins og því óþarfi að rekja þau atriði sérstaklega. Vísað er til þeirra til fyllingar andsvörunum.
Umbj. minn hefur í meginatriðum tvennt við umsögn Vinnumálastofnunar að athuga.
I. Fullreynt er að finna hæfan umsækjanda innan EES. Um valdsvið Vinnumálastofnunar.
Af hálfu umbj. míns er í fyrsta lagi bent á að sá grundvöllur sem Vinnumálastofnun byggði synjun sína á og taldi koma í veg fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis til umbj. míns er ekki lengur fyrir hendi. Til stuðnings synjuninni vísar stofnunin nokkuð almennt og óljóst til ákvæða 7. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga og EES-reglugerðar nr. 1612/68/EBE um frelsi launþega til flutninga innan EES. Einkum virðist vísað til forgangs EES-ríkisborgara fram yfir aðra útlendinga til lausra starfa hérlendis og þess að skilyrði tímabundins atvinnuleyfis sé að kunnáttumaður verði ekki fenginn innanlands. Umbj. mínum var í hinni kærðu ákvörðun síðan bent á að leita aðstoðar EES-vinnumiðlunar og svæðisvinnumiðlunar.
Umbj. minn fær ekki séð annað en að óumdeilt sé að kunnáttumaður í taílensku nuddi verði ekki fenginn til starfa á Íslandi. Það er löngu fullreynt af hans hálfu og hefur því reyndar hvorki verið mótmælt né hið gagnstæða sannað af Vinnumálastofnun.
Um ábendingu stofnunarinnar um að leita til vinnumiðlana vill umbj. minn geta þess að í vetur hefur hann árangurslaust leitað eftir starfskrafti eftir þessum leiðum. Umsóknir sem borist hafa gegnum EES-vinnumiðlunina hafa verið í besta falli ófullnægjandi og sumar reyndar fjarstæðukenndar. Af þessu tilefni er rétt að ítreka að umbj. minn vantar til starfa einstakling sem kann taílenskt nudd, sem er sérstök og afmörkuð tegund nudds. Þekking í annars konar nuddi kemur því engan veginn í staðinn, enda væri umbj. minn ekki í vandræðum með að finna starfskraft ef svo væri.
Þessu til staðfestingar fylgja erindi þessu 16 yfirlit með upplýsingum um mögulega umsækjendur sem EES-vinnumiðlunin sendi umbj. mínum, auk tölvupósts umbj. míns til forstarfsmanns vinnumiðlunarinnar dags. 6. október 2006.
Forgangur EES-borgara til starfa hérlendis er eðli málsins samkvæmt bundinn við það að meðal þeirra finnist, eftir venjulegum leiðum, einhver sem gegnt getur starfinu. Þar sem það hefur sannanlega ekki tekist bresta öll skilyrði til að takmarka umbj. minn við þann flokk umsækjenda.
Í því sambandi vill umbj. minn minna á stjórnskipulegar meginreglur um atvinnu- og athafnafrelsi og að lagastoð skortir fyrir því að leggja bönd á rétt umbj. míns til að ráða erlenda starfskrafta umfram það sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum og reglugerðum á þessu sviði.
Tilvísanir Vinnumálastofnunar til yfirlýsinga og fréttatilkynninga ráðherra koma málinu ekki efnislega við. Þær fela ekkert meira í sér en kemur fram í áðurnefndum réttarheimildum og geta þar að auki vitaskuld ekkert sjálfstætt lagalegt gildi haft sem réttarheimildir, óháð því hvort talið yrði að þessar yfirlýsingar og fréttatilkynningar fælu í sér strangari afstöðu að einhverju leyti til atvinnuréttinda borgara utan EES.
Ítrekað er að stjórnsýslan er lögbundin samkvæmt grundvallarreglunni sem er lögmætisregla stjórnsýsluréttarins. Afgreiðsla þessara mála sem og annarra getur einungis byggst á lögum og reglugerðum sem settar eru á grunni laga og geta stjórnvöld ekki farið fram úr heimildum sínum samkvæmt lögum til að hafa afskipti af athöfnum borgaranna. Sérstaklega gildir það á sviðum, eins og hér, þegar mál snúast um grunnréttindi borgaranna, eins og atvinnufrelsi og atvinnuréttindi í þessu tilviki.
Sérstaklega er mótmælt sjónarmiðum sem fram koma í síðustu málsgreinum umsagnar Vinnumálastofnunar um að einungis sé heimilt að veita atvinnuleyfi til útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkja utan EES ef mjög ríkar ástæður eru fyrir hendi".
Umbj. minn fær ekki séð að þessi skilningur stofnunarinnar eigi sér lagastoð í lögum nr. 97/2002. Gildir það hvort sem lagatextinn einn eru hafður til hliðsjónar og því heldur ef lögin eru virt í ljósi áðurnefndra grunnreglna stjórnarskrárinnar, eins og vera ber. Þessi mjög svo stranga túlkun, sem myndi færa stjórnvöldum nánast algert geðþóttavald um atvinnuréttindi þessara útlendinga og þeirra sem vilja ráða þá til starfa, fær heldur ekki stoð í lögskýringargögnum með lögunum.
Þetta á því heldur við þar sem umbj. minn hefur sýnt fram á að engan hæfilegan umsækjanda er að finna, eftir venjulegum leiðum, á EES-svæðinu. Af sömu ástæðu mómælir umbj. minn sérstaklega tilvísunum stofnunarinnar til meintra fordæma í úrskurðum ráðuneytisins. Þegar af tilvísun stofnunarinnar sést að þeir hafa ekkert fordæmisgildi fyrir mál þetta af þeirri einföldu ástæðu að kærendur í þeim málum hafa, eins og segir í umsögn stofnunarinnar, ekki fullreynt að ráða ríkisborgara [EES-ríkis] og þar með ekki sýnt fram á nauðsyn þess að ráða umrædda útlendinga til starfa". Með vísan til þess sem fyrr kom fram og gagna sem fylgja umsögn þessari hefur umbj. minn einmitt sýnt fram á að fullreynt er, eftir þeim leiðum sem ætlast má til að farnar verði, að hæfur umsækjandi verði fundinn á EES-svæðinu.
Til stuðnings því að ekki sé fullreynt að finna starfskraft á EES-svæðinu telur stofnunin sig loks þess umkomna að benda á að umbj. minn geti til að mynda sent einstaklinga til Taílands á umrætt námskeið". Þó þessi ummæli dæmi sig eiginlega sjálf tekur umbj. minn það eitt fram að það verður ekki lagt á hann að standa straum af því að senda fólk til annars lands til að læra fag ef þegar er völ á fagfólki frá viðkomandi landi.
Af ofangreindu sést að grundvöllur synjunar Vinnumálastofnunar á umsókn umbj. míns, hvort sem hann var réttur eða rangur á sínum tíma, er í öllu falli ekki lengur fyrir hendi. Ber þegar af þeirri ástæðu að fella úr gildi synjun stofnunarinnar og veita umbj. mínum umrætt tímabundið atvinnuleyfi, svo hann geti komið rekstri sínum af stað.
II. Um sérþekkingu og mat á kunnáttumanni"
Í öðru lagi vill umbj. minn mótmæla rakalausum fullyrðingum Vinnumálastofnunar um að starfið sem um ræðir krefjist ekki sérþekkingar og tengdum sjónarmiðum sem fram koma í umsögn stofnunarinnar. Þeim fullyrðingum er mótmælt sem röngum og, verður að segjast, allt að því móðgandi.
Umbj. minn bendir á að það hvorki ekki í verkahring né á færi Vinnumálastofnunar að gerast einhvers konar matsstofnun um gæði eða innihald náms þess sem viðkomandi manneskja hefur stundað. Til slíkra starfa er stofnunin ekki ætluð og hefur hún hvorki til þess nægilega aðstöðu né heimildir að lögum til að leggja slíkt mat á nám í grein sem hún þekkir ekkert til í fjarlægum heimshluta og byggja íþyngjandi ákvörðun á slíkum niðurstöðum. Sérstaklega á þetta við þegar haft er í huga að athugun" stofnunarinnar hefur augljósa byggst á því að heimsækja heimasíðu viðkomandi skóla á netinu og skoða sig þar um án nokkurrar frekari upplýsinga- eða gagnaöflunar.
Orðið kunnáttumaður" í lögum nr. 97/2002 verður þar að auki ekki túlkað svo að einhver skilyrði um prófgráður eða nám standi þar að baki. Til að teljast kunnáttumaður getur fyllilega nægt reynsla í viðkomandi fagi. Í því sambandi bendir umbj. minn á að Anusorn hefur margra ára reynslu af taílensku nuddi auk viðkomandi prófgráðu.
Vinnumálastofnun nefnir auk þess í umsögn sinni, án þess að sýnilegur tilgangur sjáist með því í ljósi eðlis málsins og efnis ágreiningsins, kjör Anusorn samkvæmt ráðningarsamningi. Því er mótmælt að vísbendingar um kunnáttu eða gæði" þekkingar Anusorn verði lesnar út úr launum hennar, eins og hér háttar til sem og því að í sömu átt gangi sú staðreynd að sótt er um ráðningu í hlutastarf.
Umbj. minn bendir á að hann hefur lagt viðkomandi ráðningarsamning fyrir stéttarfélag samkvæmt lagafyrirmælum, sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002. Engar athugasemdir voru gerðar við hann hjá stéttarfélaginu.
Vegna þess að stofnunin dregur ofangreind atriði út og reynir þannig að slíta þau úr samhengi og gera tortryggileg vill umbj. minn, enda þótt það snerti málið ekki og honum sé það ekki skylt, skýra þau sérstaklega. Þau eiga sér í alla staði eðlilegar skýringar. Ráðningarkjör Anusorn taka mið af því að hún er mágkona umbj. míns og mun búa í fríu fæði og húsnæði hjá fjölskyldu sinni meðan á starfstíma stendur. Þar að auki er um áhættusaman frumkvöðlarekstur að ræða og verður því að gæta aðhalds í launagreiðslum fyrsta kastið. Það útskýrir einnig þá staðreynd að ráðið er í hlutastarf: umbj. minn telur varlegt að fara hægt af stað og byrja með starfskraft í hlutastarfi fyrst í stað, þangað til í ljós kemur með reynslunni hvort grundvöllur sé fyrir starfseminni.
Umbj. minn vill loks taka fram, enda þótt þess þurfi vart, að óheyrilegar tafir málsins og vöntun á starfsmanni hefur þegar valdið honum miklu tjóni. Sérhæft atvinnuhúsnæði fyrir þá starfsemi sem hann vantar viðkomandi starfskraft til hefur staðið autt og ónotað í næstum ár. Umbj. minn reiðir sig því á að ráðuneytið felli úr gildi ranga og óréttmæta ákvörðun Vinnumálastofnunar svo hann geti hafið starfsemi sem allra fyrst.
Virðingarfyllst,
f.h. Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl.
Finnur Þór Vilhjálmsson, lögfr.
Hjálagt:
Afrit umsókna frá EES-vinnumiðluninni
19 maí sendi ég Magnúsi félagsmálaráðherra tölvupóst og spurði hann hvort hann næði að klára mín mál áður en hann lyki störfum, því var ekki svarað.
23 maí sendi ég Jóhönnu Sigurðardóttir tölvupóst og óskaði henni til hamingju með tilvonandi ráðherradóm og rakti fyrir henni gang mála hjá mér meðal annars fyrrihluta þessara samantektar. þeim póst var ekki svarað.
13 júní sendi ég nýjum félagsmálaráðherra tölvupóst og spurðist fyrir um gang minna mála. því var ekki svarað
18 júli semdi ég ráðherra aftur tölvupóst þar sem ég ítreka að mig er farið að lengja eftir svari og sendi henni með póstinn frá 13 júní sem ekki var svarað. daginn eftir fékk ég svar þar sem ráðherra þakkarfyrir erindið Ég læt skoða þetta í ráðuneyti og þú færð vonandi fljótlega að vita um hvað líður afgreiðslu málsins. Það gæti þó eitthvað dregist v/ sumarfría í ráðinu. Kv. Jóhanna ég þakkaði henni fyrir svarið um hæl.9 ágúst sendi ég Hrannari tölvupóst og óskaði honum farsældar í nýju starfi sem aðstoðarmaður ráðherra og ekki hvað síst sem formaður innflytjendaráðs, ég upplýsti hann um gang minna mála og spurði hann hvenær mín mál yrðu tekin fyrir jafnframt sem ég óskaði eftir að hann kæmi í heimsókn svo hann sæi með eigin augum alvöru málsins. ég fékk svar 22 ágúst þar sem hann segir að mál sem þessi eru í afar föstum farvegi og litið að gera við því. ég þakkaði honum fyrir svarið og fór þess á leit að ég fengi að bjóða úrskurðarnefmdinni til mín svo hún sæi málið frá fyrst hendi. Hrannar svaraði um hæl og sagðist ekki vita hvort nefmdin færi í slíkar vetfangsferðir en sendi Bjarnheiði, sem hefur með þessi mál að gera, afrit afsamskiptum okkar og bað hana að svara mér. Bjarnheiður Gautadóttir svaraði mér daginn eftir og sagði að Við þökkum gott boð en vegna anna verður ekki unnt að koma því við að heimsækja ykkur áður en vinnu við úrskurðinn lýkur sem áætlað er að verði í byrjun september. Ég svaraði henni um hæl og þakkaði enni fyrir svarið og ítrekaði ósk mína um að fá nefmdina í heimsókn því neyð mín er mikil og ég vil allt gera til þess að úrskurðurinn verði samgjarn og réttlátur.28 ágúst sendi ég félagsmálaráðherra tölvupóst þar sem ég útskýri ósk mína um að fá úrskuðanefndina í heimsókn svo hún sæi málið frá fyrstu hendi og spurði hana hvort það vari nokkuð rangt af mér að fara þess á leit. póstinum var ekki svarað
10 september sendi ég Bjarnheiði tölvupóst þar sem ég spyr enn og aftur hvort séð er fyrir enda á mínum málum
18 september fékk ég svar þar sem segir að vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur enn ekki tekist að klára úrskurðinn í málinu þínu. Ég á þó von á að það takist innan skamms.
Í lok september fór ég með möppuna með tölvupóstum og öðrum gögnum til Umboðsmanns Alþingis og kvartaði undan afgreiðslunni og seinaganginum. Umboðsmaður ritaði félagsmálaráðuneytinu bréf þann 27. september þar sem hann biður um upplýsingar um gang minna mála og taldi það sérstakt tilefni að fá upplýsingar um hvort verklagsreglum hafi verið breitt vegna umsagnar vinnumálastofnunar og tilkynningum um fyrirsjáanlegar tafir eftir athugasemd sem hann sendi 9 júlí sl.
eitthvað virðist nú hafa hreifst við málinu því 10 okt 07 fékk lögfræðingur minn sem útbjó kæruna bréf þar sem óskað er eftir gögnum þar sem ég svara þeim atvinnuumsóknum sem mér voru sendar frá vinnumálastofnun ég tók þær saman (sem betur fer átti ég þær til á annan tug skeyta sem ég sendi en fékk þó aðeins svör við 2 (og á þá leið að umsækjandi hefði ekki umbeðna kunnáttu) ég fór með svörin til lögfæðingsins 12 okt.
virðingafyllst
Bogi Jónsson
Athugasemdir
jahérna hér ! það er erfitt að bera virðingu fyrir vinnumálastofnun eftir þennan lestur Bogi.. þetta er svakaleg staða sem þú ert í. Hefur mágkonan fengið atvinnuleyfi ?
Óskar Þorkelsson, 20.10.2007 kl. 00:27
Sæll Óskar nei ekki enn en það verður fyrir jól, það er bara spurningin hvaða jól
en að öllu gríni sleppt þá eru þessi utan EU dvalar og atvinnuleyfis mál komin langt útfyrir mörk skynseminnar og það að leiðandi þær aðgerðir sem aðstandendur neyðast til að grípa til. Ég þekki manneskju sem varð að skilja við maka sinn og kvænast öðrum fjölskyldumeðlim svo hann gæti verið um tíma hjá systkini sínu hér á landi það kostaði að sjálfsögðu að það þarf að vera að allt aðskilið í húsnæðinu sem þau búa í föt, snyrtiáhöld, sitthvor svefnaðstaðan og fl. því lögreglan er þegar búin að banka uppá um miðja nótt til að tékka á fjölskyldulífinu (eins og í gamla Sovét)
Bogi Jónsson, 20.10.2007 kl. 10:47
Sæll Hrafnkell
jú það er fólk sem starfar við það, meðal annars, að útiloka að fólk utan EU geti fengið hér atvinnuleyfi og það hefur verið lagt að þeim frá yfirboðurum þeirra.
Ég verð að viðurkenna það að stundum fæ ég það viðmót, ekki hvað síst úr stjórnsýslunni, að ég er lítið betri en hver annar dýraníðingur, "því sumir finna það út að ég er náttúrulega kynvillingur þar sem ég er í sambúð með konu af öðrum kynþætti"
Bogi Jónsson, 20.10.2007 kl. 14:29
Sælir
það er mín skoðun á ÚTL að þar fær fólk vinnu ef það er rasistar.
Ég á vinkonu frá Thailandi en við erum svo heppin að hún er með dvalarleifi á ES í passanum sem er Thailenskur
þegar hún kom í 1 sinn til mín í heimsókn þá fór ég til ÚTL og spurði hvað hún mætti vera hér lengi án þess að sækja um dvalarleifi og svarið var "hún má ekki vera hérna" ég ítrkaði við konuna í afgreiðsluni að hún væri með dvalarleifi í Evrópu og svarið var "hún má ekki vera hérna" þá spurði ég konuna hvað má ég dvelja lengi í öðru ríki Evrópu og svarið var "hún má ekki vera hérna" eftir þetta fórum við til alþjóða húss og þar var okkur tjáð af lögfræðingi að hún má vera hérna eins og hver annar túisti í 3 mánuði. Hvernig á maður að geta borið virðingu fyrir þessum stofnunum??
Maggi (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 12:32
Sæll Maggi
þetta er ekkert einsdæmi, að það er komið fram við okkur og okkar fólk verr en hverjar aðrar skepnur, það þykir ekkert tiltökumál þó að logið er að okkur af embættismönnum og flest gert til að flækja og tefja okkar mannréttinda mál.
ég hvet aðra sem hafa þurft að ganga í gegn um svona bulli að tjá sig hér.
Bogi Jónsson, 21.10.2007 kl. 15:38
Sæll Erlingur
það er með öllu óþolandi hvað stjórnvöld á þessu sviði komast upp með að traðka á almenningi meðan hann er ekki með réttu "tengslin"
Þetta mál mitt hefði kannski gengið betur ef ég hefði skipt um nafn látið skíra mig Kára Hnjúk
En það er nokkuð ljóst að þau fá ekki sömu meðferð hjá kerfinu Jón eða séra Jónína
Bogi Jónsson, 1.11.2007 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.